Körfubolti

Helena fær sæti í Heiðurshöll TCU skólans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir á ferðinni í leik með Texas Christian University skólanum sem jafnan gengur undir nafninu TCU.
Helena Sverrisdóttir á ferðinni í leik með Texas Christian University skólanum sem jafnan gengur undir nafninu TCU. Mynd/TCU

Íslenska körfuboltakonan Helena Sverrisdóttir verður tekin inn í Heiðurshöll Texas Christian University í haust en skólinn tilkynnti þetta á heimasíðu sinni.

Nýjustu meðlimir Heiðurshallarinnar verða heiðraðir með viðhöfn á fótboltaleik TCU skólans 4. október næstkomandi og vonandi fær Helena að vera viðstödd.

Helena átti fjögur frábær ár með körfuboltaliði skólans frá 2007 til 2011. Hún kom þangað sem tvöfaldur Íslandsmeistari með Haukum og fór síðan í atvinnumennsku í Evrópu eftir að hún útskrifaðist úr skólanum.

Helena var valin nýliði ársins Mountain West deildinni á fyrsta tímabilinu 2007-08 og var síðan valin besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2009-10.

Engin leikmaður TCU hefur verið valin oftar leikmaður vikunnar í Mountain West deildinni en þann heiður fékk Helena níu sinnum á ferli sínum með skólanum.

Helena er líka eini leikmaðurinn í sögu skólans með að lágmarki 1700 stig, 800 fráköst og 500 stoðsendingar á ferlinum sínum.

Helena gaf 546 stoðsendingar í búningi TCU sem er það mesta í sögu skólans. Hún er einnig fjórða stigahæst (1764) og í fimmta sæti í stolnum boltum (227) í sögu skólans.

Helena er fimmta körfuboltakonan í sögunni sem er tekin inn í heiðurshöll Texas Christian University en þangað kemst besta íþróttafólk skólans úr öllum íþróttunum sem þar eru stundaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×